Lykillinn að skapandi skólastarfi
Grunnskólakennarar hafa lengi kallað eftir efni og handleiðslu við að útfæra þá stefnubreytingu sem varð þegar aðalnámskrá grunnskóla var gefin út árið 2011.
Starfsfólk Ásgarðs hafa frá árinu 2016 leitast við að styðja sveitarfélög, skólastjórnendur og kennara við að innleiða áherslur aðalnámskrár. Til að svara hrópandi þörf fyrir leiðbeiningum um skapandi og fjölbreytt skólastarf var leitað í Framfarasjóð Samtaka iðnaðarins sem styrkti verkefnið Nýsköpunarlykillinn ríflega.
Á þessari vefsíðu finnur þú sex stóra þemaverkefnapakka og kennsluáætlanir sem leiðir nám áfram með aðferðum nýsköpunar og uppgötvunarnáms. Öll þemaverkefnin eru skrifuð með fjölbreyttar þarfir nemenda í huga. Markmiðið með Nýsköpunarlyklinum er að auðvelda grunnskólakennurum aðgengi að efni sem eflir sköpun í skólastarfi og draga fram birtingarmynd verkefna sem snúast um lykilhæfni nemenda.
Gæðavottunin Nýsköpunarskóli
Nýsköpunarlykillinn er ekki bara verkefnabanki heldur fylgir gæðahandbók fyrir grunnskóla sem vilja staðfesta annaðhvort með ytra mati eða innra mati að þeir geti kallað sig Nýsköpunarskóla. Gæðahandbókin er opin hér á síðunni en það er líka hægt að óska eftir heildstæðri úttekt á stöðu hvers skóla fyrir sig. Skólar geta öðlast vottunina Nýsköpunarskóli og borið Nýsköpunarlykilinn til þriggja ára.
Eitt af stóru verkefnum hvers skóla er að sýna fram á með innra mati hvernig gæða skólastarfi er háttað. Í nýrri menntastefnu menntamálaráðherra kemur skýrt fram að þegar til framtíðar litið verða gæði í forgrunni. Gæðaviðmið Nýsköpunarlykilsins byggja á handbók menntamálastofnunnar um gæðastarf í grunnskólum og norrænu gæðaviðmiðunum „Frá draumi til veruleika“. Lítil hefð er fyrir því á Íslandi að grunnskólar skreyti sig með gæðaúttektum en hér skapast tækifæri til þess að skólar geti óskað eftir slíkri úttekt og fengið formlega staðfestingu á því að viðkomandi skólar geti kallað sig Nýsköpunarskóla.
Sex heildstæð og samþætt þemaverkefni fyrir grunnskólakennara
Nýsköpunaráherslan í verkum Nýsköpunarlykilsins er stigvaxandi ferli þar sem sköpun er kjarninn í verkefnavinnu nemenda. Nemendur læra að ígrunda, endurgera, rökstyðja og rökræða eigin hugmyndir. Nemendur læra að börn geta haft áhrif á umhverfi sitt og annarra. Þeir eru þannig að æfa sig í að nota frumkvöðlahugsun sem byggir á tjáningu, lýðræðislegum vinnubrögðum, jafnrétti, sjálfsmynd þeirra og samskiptum sín á milli. Þetta læra þeir í gegnum verkefni, leiki og skemmtun.
Þemaverkefnin í Nýsköpunarlyklinum eru sett þannig upp að allir nemendur eiga að geta tekið þátt, óháð stöðu þeirra í náminu. Það er auðvelt að aðlaga verkefnin, þannig að þau henti vel öllum árgöngum grunnskóla. Erlendir nemendur (ÍSAT) geta leitað upplýsinga á móðurmáli sínu og jafnvel unnið allt verkefnið á sínu tungumáli.
Þemaverkefnin byggja á hugmyndum um nýsköpun í skólastarfi. Þar að auki eru grunnþættir menntunar, lykilhæfni og nýsköpunarhugsun leiðarljós allra verkefna, ásamt hæfniviðmiðum aðalnámskrár grunnskóla. Þar sem námskráin byggir á hugmyndafræði um leiðsagnarnám, þá fylgja þemanu viðmið um árangur sem nemendur geta nýtt sér til að vita til hvers sé ætlast af þeim.
Yngsta Stig
Miðstig
Unglingastig
Námsgagnatorgið
Öll þemaverkefni Nýsköpunarlykilisins eru aðgengileg á Námsgagnatorginu www.namsgagnatorgid.is. Þemaverkefnin eru sex talsins og skiptast upp í 180 námseiningar. Þemaverkefnin sem tilheyra Nýsköpunarlyklinum eru samþætt úr öllum námsgreinum grunnskólans og beintengd hæfniviðmiðum aðalnámskrár.
Á Námsgagnatorginu eru viðmið um árangur tengd hverju einasta hæfniviðmiði sem gerir það að verkum að námsmatið getur farið fram í rauntíma. Rúmlega 20 grunnskólar taka þátt í að þróa Námsgagnatorgið sem er í hraðri þróun.
Áhugasamir geta fylgst með á samfélagsmiðlum Ásgarðs eða haft beint samband við Önnu Maríu – annamaria@ais.is