Sjálfbært Samfélag

Sjálfbært Samfélag – Sjálfbærni fyrir miðstig


Verkefnið er 33 námseiningar í sjö hlutum sem hægt er að taka fyrir í einu samfelldu þema eða að brjóta niður í fimm smærri þemu – eða taka fyrir einstakar námseiningar.  Rauði þráðurinn er sjálfbærni og sköpun. Fyrsti hlutinn er kveikja og forþekkingarvinna en svo tekur við viðamikill annar hluti „Hreint vatn” þar sem nemendur kynna sér hringrás vatns, rýna í eigin vatnsnotkun og finna leiðir til þess að hreinsa vatn. Nemendur kynna sér aðbúnað fólks sem býr við vatnsskort og persónugera fjölskyldu og gefa líf með því að setja upp brúðuleikhús. Í þriðja hlutanum „Sjálfbærni Íslands – matur” velta nemendur fyrir sér hvort Ísland sé raunverulega sjálfbært um mat og finna svo leiðir til þess að nýta mat betur og matreiða mat úr mat sem annars hefði farið í ruslið. Í fjórða hlutanum velta nemendur fyrir sér hvað lönd þurfa að gera til að verða kolefnishlutlaus og reikna út sín eigin kolefnisfótspor. Í fimmta hlutanum „Orka” læra nemendur um orku, auðlindir og orkuskipti ásamt því að útbúa sinn eigin orkugjafa! Sjötti hlutinn „Sjálfbært þjóðfélag” er stærsta verkefnið í þessu þema. Nemendur útbúa stórt líkan af sjálfbæru samfélagi og nota til þess fjölbreyttan efnivið. Þegar líkanið er tilbúið bjóða nemendur forráðamönnum í heimsókn. Síðasti hlutinn sá sjöundi eru nokkur val- og aukaverkefni sem hægt er að grípa ef nemendum fer að leiðast eða ef í hópnum eru einstaklingar sem eiga erfitt með mikið samvinnunám. 

Áætluð lengd: heildartímafjöldi getur verið til dæmis 2×2 kennslustundir á viku í 6 vikur eða 24 tímar. Það er líka auðvelt að fara á dýptina með verkefni og  nota þannig meiri tíma í hvert þeirra og jafnvel hafa verkefnið sem fasta tíma í töflu nemenda í eina önn eða heilt skólaár. Sumar námseiningar eru þannig að þær má vinna með í nokkrar kennslustundir. Mikilvægt er að kennarar lesið verkefnið vel í gegn og geri þær breytingar sem henta. Þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir að námslotan sé samfelld er auðvelt að taka einstök verkefni út og vinna með. 

Námsgreinar: íslenska, list- og verkgreinar, lykilhæfni, náttúrugreinar, enska, samfélagsgreinar, stærðfræði, upplýsinga- og tæknimennt. STEM er bæði samþætt inn í námsferlið og svo fylgja viðbótarverkefni með neðst. 

Miðstig: þetta þemaverkefni er skrifað fyrir miðstig. Verkefnið má þó auðveldlega vinna með eldri nemendum, með því að uppfæra hæfniviðmiðin og aðlaga viðfangsefnin. Megináhersla þessa verkefnis er þjálfun í frumkvöðla- og nýsköpunarhugsun.

Handbók kennara er aðgengileg hér sem Google Doc skjal. Hægt er að taka afrit og aðlaga skjalið. Allar góðar hugmyndir og ábendingar um hvað betur má fara eru vel þegnar sem komment inni í skjalinu.