Betra Líf

Betra Líf – Heilbrigði og Velferð fyrir miðstig


Þemaverkefnið Betra líf gengur í meginatriðum út á að nemendur útbúi líkan af samfélagi/þjóðfélagi þar sem áhersla er lögð á heilbrigði og velferð íbúanna. Heimsmarkmiðin og Barnasáttmálinn eru í gildi í samfélaginu sem nemendur búa til. Verkefnið er 30 námseiningar í tveimur megin hlutum sem hægt er að taka fyrir í einu samfelldu þema eða skipta upp í tvö eða fleiri verkefni. Níu námseiningar eru valverkefni sem geta staðið ein og sér. Fyrri hluti verkefnisins byggir mikið til á samvinnu og samstarfi nemenda sem getur kallað á einstaklingsverkefni fyrir einstaka nemendur, annaðhvort til að hvíla frá samvinnuverkefnum eða til að vinna sjálfstætt. 

Í fyrri hlutanum fjalla námseiningarnar hver af annarri um lykilhugtökin sem lagt er upp með að nemendur beiti þegar þeir búa sér til sitt fyrirmyndarsamfélag. Þannig mynda verkefni samfellu sem gerir ráð fyrir að nemendur geti beitt þeim hugtökum sem þeir læra og yfirfæra hugtökin yfir á samfélag sem krakkarnir fá sjálf að skapa. Verkefnið endar á sýningu á samfélaginu þar sem hóparnir kynna sitt verkefni og nota hugtökin sem nemendur hafa tileinkað sér. 

Áætluð lengd: heildartímafjöldi getur verið til dæmis 2×2 kennslustundir á viku í 6 vikur eða 24 tímar. Það er líka auðvelt að fara á dýptina með verkefni og  nota þannig meiri tíma í hvert þeirra og jafnvel hafa verkefnið sem fasta tíma í töflu nemenda í eina önn eða heilt skólaár. Sumar námseiningar eru þannig að þær má vinna með í nokkrar kennslustundir. Mikilvægt er að kennarar lesið verkefnið vel í gegn og geri þær breytingar sem henta. Þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir að námslotan sé samfelld er auðvelt að taka einstök verkefni út og vinna með. 

Námsgreinar: íslenska, list- og verkgreinar, lykilhæfni, náttúrugreinar, samfélagsgreinar, stærðfræði, upplýsinga- og tæknimennt. STEM er bæði samþætt inn í námsferlið og svo fylgja viðbótarverkefni með neðst. 

Miðstig: þetta þemaverkefni er skrifað fyrir miðstig. Verkefnið má þó auðveldlega vinna með eldri nemendum, með því að uppfæra hæfniviðmiðin og aðlaga viðfangsefnin. Megináhersla þessa verkefnis er þjálfun í frumkvöðla- og nýsköpunarhugsun. 

Handbók kennara er aðgengileg hér sem Google Doc skjal. Hægt er að taka afrit og aðlaga skjalið. Allar góðar hugmyndir og ábendingar um hvað betur má fara eru vel þegnar sem komment inni í skjalinu.