Um Nýsköpunarlykilinn

Tilkoma Nýsköpunarlykilsins á sér nokkurn aðdraganda. Ráðgjafar Ásgarðs hafa nú í fimm ár unnið að því með skólum og sveitarfélögum meðal annars að því að bæta kerfisbundið nám og kennslu. Sveitastjórnarmönnum er hugleikið að vita hvort skólastarf standist þær kröfur sem eru gerðar eru af yfirvöldum menntamála – og vilja geta sýnt fram á að gæðastarf sé ástundað. Í nýrri menntastefnu menntamálaráðherra undirstrikast enn frekar sú krafa að sköpun og nýsköpun sé rauður þráður í leik-, grunn- og framhaldsskólum. 

Eftir standa þá tvö stór verkefni, annarsvegar að finna leiðir til þess að auðvelda skólum að ástunda innra mat og geta byggt það á viðmiðum og vísbendingum um gæðastarf og hinsvegar að aðstoða kennara við að ástunda skapandi skólastarf upp alla skólagönguna. 

Nýsköpunarlyklinum er ætlað að vera liður í því að leysa þessi stóru viðfangsefni. Í fyrsta lagi hafa ráðgjafar Ásgarðs búið til sex umfangsmikla þemapakka sem gefa mynd af þeim starfsháttum sem mikilvægt er að ástunda til að skólastarf geti talist skapandi. Öllum þemaverkefnunum fylgir stutt myndband með lýsingu á því hvernig hægt er að nýta efnið – ýmist allt eða í smærri einingum. Verkefnin í Nýsköpunarlyklinum byggja á áherslum aðalnámskrár um samþættingu námsgreina og þá fyrst og fremst tengingu hugar og handar. Framgangurinn byggir á Nýsköpunarstiganum sem Eyjólfur Eyjólfsson (Nýsköpunarmiðstöð Íslands) setti fram – en þessum grunnskóla verkefnapakka er ætlað að leggja grunninn að frumkvöðlafærni. 

Í öðru lagi geta almennir grunnskólar innleitt viðmið og vísbendingar um skólastarf í Nýsköpunarskólum og sóst eftir því að fá gæðavottunina Nýsköpunarlykillinn. Sá skóli sem hefur öðlast Nýsköpunarlykilinn getur kallað sig Nýsköpunarskóla – eða nýtt vottunina til þess að benda á að skólastarf í viðkomandi skóla standist kröfur gildandi menntastefnu og geti þannig talist vera góður. Til að öðlast vottunina sjálfa þarf hver skóli að sýna fram á með sínu innra mati hvernig framkvæmd skólastarfs styður við áherslur Nýsköpunarlykilsins. 

Öll gögn á heimasíðu Nýsköpunarlykilsins eru opin öllum og heimilt að nota en ekki endurselja. Hverja námseiningu úr Nýsköpunarlyklinum er einnig að finna á Námsgagnatorginu – www.namsgagnatorgid.is en það er miðlæg gagnaveita sem ráðgjafar Ásgarðs hafa þróað með Costner ehf – fyrirtæki sem á og rekur www.learncove.io. Með tilkomu Námsgagnatorgsins gátum við hjá Ásgarði komið efni Nýsköpunarlykilsins til kennara í þróunarskólunum okkar í smærri einingum og gátum líka tengt saman samþættingu námsgreina og leiðsagnarnáms á ótrúlega einfaldan og skemmtilegan hátt. Þannig gátum við samhliða því að koma gögnunum á einn stað á heimasíðunni forprófað einingarnar með kennurum og nemendum. 

Ásgarður – skóli í skýjunum verður fyrsti skólinn til að hljóta Nýsköpunarlykilinn. Fast á eftir fylgja Tálknafjarðarskóli, Patreksskóli og Grunnskóli Bolungarvíkur. Skólarnir sem hafa tekið þátt í þróuninni eru Reykhólaskóli, Patreksskóli, Bíldudalsskóli, Tálknafjarðarskóli, Grunnskóli Bolungarvíkur, Grunnskóli Strandabyggðar, Grunnskóli Fjallabyggðar, kennarar úr Giljaskóla og Brekkuskóla á Akureyri, Reykjahlíðarskóli í Skútustaðahreppi, Grunnskólinn á Þórshöfn, Grunnskóli Raufarhafnar, Öxafjarðarskóli, Brúarskóli og Borgarhólsskóli. Við erum gríðarlega stolt og þakklát fyrir stuðninginn en við munum þróa Námsgagnatorgið áfram til að styðja okkar frábæru kennara við að tileinka sér og ástunda skapandi vinnubrögð í skólastarfi. 

Umsagnir kennaranna hafa verið ótrúlega jákvæðar og við trúum því að við getum raunverulega hjálpast að við að koma íslensku skólastarfi á heimsmælkvarða. Við þökkum öllum sem tekið hafa þátt í verkefninu með okkur og Framfarasjóði Samtaka iðnaðarins þökkum við fyrir að hafa haft trú á verkefninu.

Höfundar 

Anna María Þorkelsdóttir 

Kristrún Lind Birgisdóttir