Valdatafl

Valdatafl – Jafnrétti


Þemaverkefnið Valdatafl gengur í meginatriðum út á að nemendur fái þjálfun í frumkvöðla- og nýsköpunarhugsun. Námsferlið er heildstætt og samþættir vinnu með 8 faggreinar með möguleika á að fjölga þeim (t.d. með því að velja texta á erlendum tungumálum og setja viðeigandi hæfniviðmið og viðmið um árangur). Fyrirkomulag náms nemenda í þemaverkefninu Valdatafl byggir að miklu leyti á samvinnunámi (e. Cooperative learning). Markmiðið er að nýta samvinnuna til þess að styrkja félagsfærni, efla samkennd og auka virðingu fyrir samnemendum. Í þemaverkefninu Valdatafl er búið að útfæra dæmi um námsferlið í þemaverkefninu og byggja samvinnuna þar inn í. Kennurum er falið að útfæra hópaskiptinguna á fjölbreyttan hátt. Forþekkingarverkefnin eru oft einstaklingsverkefni en í kjölfarið hefst samvinna og frekari útfærsla á hverju viðfangsefni fyrir sig. Í námsferlinu gera nemendur m.a sína eigin verkefnalýsingu og setja sér viðmið um árangur sem þeir nota til að máta afurðina sína við og vinna þannig með kennaranum að lokamati á þemaverkefninu. Við hvert verkefni inni í námsferlinu hafa verið sett fram hæfniviðmið og viðmið um árangur nemenda. Mælt er með að meta hvern þátt um leið og hann hefur verið unninn sem hluta af leiðsagnarnámi.  

Verkefnið er 36 námseiningar í sex megin hlutum sem hægt er að taka alla fyrir í einni samfellu eða brjóta niður í fjögur smærri þemu. Allar einingarnar eru í raun sjálfstæðar og hægt að nýta hverja fyrir sig þrátt fyrir að oft sé að finna í þeim tillögur að tengingum við aðrar námseiningar. Rauði þráðurinn í Valdatafli er jafnrétti. 

Í fyrsta hlutanum vinna nemendur með lykilhugtök verkefnisins í sérfræðihópum, horfa á bíómynd, vinna listaverk, skrifa frétt og gera rannsóknarritgerð. Í öðrum hluta skrifa nemendur fréttir á ensku, skapa persónur og rannsaka launakjör þeirra, skipuleggja og taka þátt í kappræðum og að lokum grípa þau til aðgerða og stofna baráttusamtök. Í þriðja hlutanum búa nemendur til kvikmynd, þeir skrifa  handrit, útbúa söguborð kvikmyndarinnar, skipuleggja upptökur, kynna bíómyndina og bjóða til sýningar og rýna í lokin í námið sem hefur átt sér stað við kvikmyndagerðina. Í fjórða hlutanum stofna nemendur stjórnmálaflokk, heimsækja stofnanir, ákveða og kynna áherslur sínar og málefni, gera auglýsingar, rökræða og fara í eiginlega kosningabaráttu. Að lokum setja nemendur upp þing þar sem kosið er um ríkisstjórn hópsins. Síðasti hlutinn, sá fimmti er nokkur val- og aukaverkefni sem hægt er að grípa ef nemendum fer að leiðast eða ef í hópnum eru einstaklingar sem eiga erfitt með mikið samvinnunám eða til að hvíla þemavinnuna. 

Áætluð lengd: Heildartímafjöldi getur verið til dæmis 2×2 kennslustundir á viku í 6 vikur eða 24 tímar. Hægt er að láta valverkefnin taka smám saman við, þegar hóparnir ljúka sínum verkefnum. Það er líka auðvelt að fara á dýptina með verkefni og nota þannig meiri tíma í hvert þeirra og jafnvel hafa verkefnið sem fasta tíma í töflu nemenda í eina önn eða heilt skólaár. Sumar námseiningar eru þannig að þær má vinna með í nokkrar kennslustundir. 

Námsgreinar: Íslenska, list- og verkgreinar, lykilhæfni, náttúrugreinar, samfélagsgreinar, stærðfræði, upplýsinga- og tæknimennt.

Unglingastig: Þetta þemaverkefni er skrifað fyrir unglingastig. Verkefnið má þó auðveldlega vinna með yngri nemendum, með því að uppfæra hæfniviðmiðin og aðlaga viðfangsefnið.

Handbók kennara er aðgengileg hér sem Google Doc skjal. Hægt er að taka afrit og aðlaga skjalið. Allar góðar hugmyndir og ábendingar um hvað betur má fara eru vel þegnar sem komment inni í skjalinu.